148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki búinn að pæla í því sem hv. þingmaður benti á, þ.e. ef hagvöxtur vex er hægt að gera þetta allt. Mér hafði ekki einu sinni dottið það í hug, því að það er náttúrlega enginn aukinn hagvöxtur spilunum í hagvaxtarspánni sem þetta byggist á. Þetta er púslið sem vantaði í samsetninguna um aukningu til innviða, skattalækkunar og alls þess. Þetta gengur upp ef hagvöxtur vex. En þannig er spáin ekki. Það er ótrúlegt að þessu hafi verið púslað saman af ráðuneytinu og ríkisstjórninni þegar það má í rauninni ekki út frá þeim tölum sem þetta er byggt á.

Fyrir þá sem voru í fjárlaganefnd kom það mjög skýrt fram hjá fjármálaráði þegar það kom á fund nefndarinnar og talaði þar mjög tæpitungulaust. Það var ekki á alveg sama stofnanamáli og maður les í álitinu. Ég ætla ekki að hafa þau orð eftir, en þau voru mjög afgerandi.

Er þetta gagnsæi, þ.e. um hvað á að gera? (Forseti hringir.) Þetta passar ekki saman, púslið sem vantar inn í er það að þetta gengur bara upp ef hagvöxtur vex.