148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

virkjun Hvalár á Ströndum.

[10:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Náttúra landsins er auðlind í sjálfu sér og felur í sér mikil verðmæti fyrir þjóðina og heiminn allan. Skyldur okkar gagnvart náttúrunni og ábyrgð eru því miklar. Stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs felur m.a. í sér að stofnaðir verði þjóðgarðar á miðhálendinu og á hálendi Vestfjarða. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er kynnt á blaðsíðu 23 í stjórnarsáttmálanum og kveður aðeins á í þessum efnum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa mikilvægi afhendingaröryggis raforku á Vestfjörðum en bendi á að aðrar leiðir eru færar til þess að tryggja íbúum Vestfjarða örugga afhendingu á raforku en að stórspilla náttúrunni með því að virkja Hvalá á Ströndum. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Má treysta því að ríkisstjórn undir hennar forystu láti náttúruna njóta vafans og að hin óbyggðu víðerni á hálendi Vestfjarða verði varin fyrir áhrifum virkjunar Hvalár á Ströndum?