148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tilheyri einum af síðustu árgöngunum í Verslunarskóla Íslands þar sem var reynt að smala í Heimdall með ákveðnum hætti þegar ég var 14 ára gamall. Ég er ekki feiminn við að ungt fólk kjósi eða beri ábyrgð, alls ekki. En ég nenni ekki að sitja undir því að einhver sjálfskipaður umboðsmaður barna sé að vanda um fyrir okkur og segja að við séum dragbítar og hræddir við þessa breytingu. Ég nenni ekki að sitja undir því.

Ég treysti ungu fólki mjög vel. Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert í þessu starfi er að tala um pólitík við ungt fólk. Ég hvet ungt fólk ávallt til að taka þátt í pólitík. Mikið. Mjög. En ég ber hins vegar þá virðingu fyrir ungu fólki og öðrum að ég vil reyna að gera almennilega þá hluti sem ég geri. Vel. Ég vil ekki kasta til þeirra höndunum. Þess vegna vil ég gera þetta þannig að góður verði tími til að uppfræða ungt fólk um hvað felst í því að hafa kosningarrétt.

Hræddur við ungt fólk? Aldrei í lífinu.