148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þessi breytingartillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gengur út á að greina á milli kjörgengis og kosningarréttar til sveitarstjórna. Ástæðan fyrir því að meiri hlutinn, sem ég tilheyri ekki í þessu máli, leggur þetta til er að það þykir væntanlega með einhverjum hætti ankannalegt að einstaklingar geti tekið sæti í sveitarstjórn og haft það fjárstjórnarvald sem því fylgir án þess að vera sjálfir fjárráða persónulega. Mér finnst það endurspegla svolítið vandann í þessu máli, þetta misræmi sem frumvarpið gerir ekkert annað en að auka á í sambandi við réttindi ungs fólks.

Ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég tel að á margan hátt væri eðlilegra að kosningarréttur og kjörgengi færu alltaf saman. Ég skil auðvitað ákveðin sjónarmið á bak við afstöðu meiri hlutans í þessu máli, en mér finnst þetta fyrst og fremst draga það fram að þarna er verið að auka misræmi milli mismunandi réttinda og skyldna sem ungt fólk tekst á hendur.