148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

393. mál
[15:54]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferðina. Málið er mér nú nokkuð kært. Ég var framsögumaður þess í nefndinni á síðasta kjörtímabili þar sem það náði því miður ekki að klárast. Ég er auðvitað eins og margir aðrir þeirrar skoðunar að það sé tímabært fyrir okkur að stíga þessi skref þó að þau séu reyndar kannski ekkert mjög stór ef við berum þetta saman við þá löggjöf sem hefur verið sett um þessi mál í ýmsum öðrum löndum. Sú vernd sem þar er veitt er oft jafnvel ríkari en hér er gert. Hins vegar er þetta ágætis fyrsta skref og raunar má segja að það er dálítið merkilegt hve mikið misræmi er á Íslandi í þessu annars vegar þegar við lítum til þess að löggjöf okkar þegar kemur að jafnrétti kynjanna hefur gengið nokkuð vel að koma í gegn á meðan þetta mál hefur ekki gengið jafn hratt fyrir sig.

Ég játa að ég hef ekki náð að kynna mér efni málsins nægilega vel til þess að vita hvort það séu einhverjar efnislegar breytingar á því frá því að það var samþykkt út úr þingflokkum á síðasta kjörtímabili og langar í fyrsta lagi að spyrja ráðherrann að því.

Í öðru lagi langar mig að spyrja, vegna þess að málið var boðað í febrúar, nú er mars að líða, hvort einhverjir annmarkar séu á því eða hvort ráðherra upplifi einhverja andstöðu við málið innan síns flokks eða annarra stjórnarflokka.