148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:19]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt áður er þessi umræða um heildarafkomu ríkissjóðs en ekki til hvaða einstakra framkvæmda við eigum að veita peninga. Mín skoðun er sú að ef á að velja að hver einasta af þessum krónum myndi fara í einungis samgönguviðbætur versus að greiða niður skuldir þá skal ég bara vera aðhaldssamt skoffín og segja það að ég myndi frekar vilja nýta þá peninga til að greiða niður skuldir. En innan ramma þessarar tillögu þá getur sú stjórn sem situr ákveðið að hækka skatta og eyða þeim peningum til að byggja upp samgönguframkvæmdir eða ákveðið að skera niður á einu sviði og fara frekar í innviðauppbyggingu. En ég tek það reyndar fram að það var sá flokkur hv. þingmanns sem gerði það að sínu stefnumáli að auka ríkisútgjöld um 100 milljarða og setja þá í innviðauppbyggingu en ekki flokkur þess sem hér stendur.