148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á margt áhugavert í ræðu sinni. Mig langar að koma inn á nokkra þætti.

Byrjum á því að velta fyrir okkur hvernig gengur í hagstjórninni. Hvernig gengur að halda verðbólgu niðri? Það gengur vel. Hvernig gengur að lækka vexti? Það hefur gengið ágætlega. Hverjir eru raunvextirnir í dag ef ungt fólk tekur húsnæðislán? Ja, þeir eru ekki neitt í líkingu við það þegar ég tók mitt fyrsta húsnæðislán og borgaði 8% fasta verðtryggða vexti. Það eru lægstu raunvextir á húsnæðislán sem við höfum séð. Hvernig gengur að reka ríkissjóð réttum megin við núllið? Það hefur gengið vel frá 2013. Hvernig gengur okkur að losna við skuldir? Ja, við höfum greitt upp 600 milljarða af skuldum frá 2013. Hvernig gengur að fá frið á vinnumarkaði? Ja, það hefur verið viðvarandi spenna en nafnlaunahækkanir í opinbera geiranum á síðustu 12 mánuðum eru þær lægstu sem við höfum séð lengi og nýbúið að framlengja kjarasamninga.

Svona væri hægt að halda áfram. Hver er frumjöfnuður ríkisins, sem er vísbending um hvernig menn reka ríkið? Ja, hann er einn sá mesti í Evrópu. Ég hafna því algjörlega að það gangi illa í hagstjórninni á Íslandi.

Varðandi það verkefni sem við höfum, að auka útflutningstekjurnar, er vissulega mikilvægt að horfa til tækni- og sprotafyrirtækja og þess vegna hefur ríkisstjórnin, þessi eins og sú síðasta, lagt áherslu á rannsóknir og þróun. Við erum með metnaðarfull áform í þeim efnum. En það verður auðvitað erfitt fyrir okkur að keppa t.d. við laun forritara í Búlgaríu sem fá kannski 1.000 evrur á mánuði ef við viljum halda uppi þeim lífskjörum sem við gerum hér og við getum ekki boðið upp á þau launakjör fyrir hámenntað fólk.

Varðandi útflutningstekjurnar í víðara samhengi stendur upp úr að þær hafa vaxið úr um 600 milljörðum, ef við horfum bara á sjávarútveg, ál og (Forseti hringir.) ferðaþjónustu, á árinu 2011 upp í rétt tæplega 900 milljarða árið 2017. Að ferðaþjónustan hafi farið úr innan við 200 milljörðum upp í 500 milljarða í útflutningstekjur er það sem hv. þingmaður ætti að vera að tala um.