148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[11:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég á ekki sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hef ekki fylgst með umræðum þar. Ég vek hins vegar athygli á að þrátt fyrir þá umfjöllun sem þar fór fram hafa menn ekki verið á eitt sáttir um hver niðurstaðan væri. Minni hluti nefndarinnar hefur verið þeirrar skoðunar að þarna væru atriði sem bæri að skoða betur, sem leiddi til þess að síðast í gær voru kallaðir inn gestir til að fjalla um málið.

Hversu oft mál eru lögð fram á Alþingi er ekki mælikvarði á gæði umfjöllunarinnar. Menn geta haft mismunandi skoðanir á einstökum atriðum í því sambandi. En mín tilfinning er sú, og um það erum við hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé alveg ábyggilega ósammála, að þarna sé einfaldlega um það að ræða að þeir sem hafa sannfæringu fyrir málinu eru löngu hættir að spyrja sig einhverra spurninga, bæði um efnisinnihald og framkvæmd. En þeir sem koma hugsanlega nýir að málinu og eru ekki búnir að flytja það sjö sinnum hafa ákveðnar efasemdir. Ef við tökum bara atkvæðaskýringar manna í gær þegar 40 þingmenn fóru í umræður um atkvæðagreiðslu því að þeir höfðu ekki tekið þátt í umræðum um málið í 2. umr., kom í ljós að þeir höfðu afskaplega mismunandi sjónarmið um þetta, mismikinn skilning á því sem var að gerast og tóku afstöðu út frá afar mismunandi forsendum.

Undir þeim kringumstæðum finnst mér að mál hafi gott af meiri umræðu áður en það er tekið til endanlegrar afgreiðslu, þó að ég viðurkenni að það ræður afstöðu minni í þessu að ég hef (Forseti hringir.) meiri efasemdir um það en hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Það litar auðvitað afstöðu mína. Ég er varfærnari gagnvart breytingunni því að ég er ekki sannfærður um að hún sé rétt.