148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Já, innflæðishöftin eru snúið mál. Það eru til góð rök með og það eru til góð rök á móti. Innflæðishöftin minnka eftirspurn erlendra aðila á skuldabréfum ríkisins og verðið fer því ekki upp. Ef það væru engin höft væri meiri eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum, sem sagt fleiri kaupa bréf. Verðið fer upp og ávöxtunarkrafan fer niður og vaxtastigið einnig. Næsti skuldabréfaflokkur ríkisins bæri þá lægri ávöxtunarkröfu. Ef fjármagn streymir hér inn keyrir það ávöxtunarkröfuna niður. Svo getur það gerst að fjárfestar selji allt og þá skapar það ójafnvægi í efnahagslífinu. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist fyrir hrun, eins og við þekkjum. Hins vegar eru rök fyrir þessu, bara rök sem virka ekki eins mikið núna og fyrir hrun. Við erum í öðrum aðstæðum eins og við þekkjum en það er hins vegar náttúrlega mjög bagalegt að fyrir hverja 100 dollara sem koma inn í landið fari 40 dollarar inn á vaxtalausan reikning. Fjárfestar hafa ekki áhuga á þessu fyrirkomulagi og við hefðum heldur ekki áhuga á þessu.

Höftin eru miðstýrt fyrirbæri en maður skilur svo sem vel hugmyndina á bak við. Við þurfum og eigum að fá hérna inn langtímafjárfesta en þeir verða þá að skilgreina sig sem langtímafjárfesta.

Lausn á þessu mikilvæga máli gæti til dæmis verið sú að ef fjárfestir kaupir ríkisskuldabréf til ákveðinna ára, segjum tíu ára, væri einungis hægt að selja þau í fyrsta lagi eftir helming binditímans, t.d. fimm ár, til að tryggja stöðugleikann. Þannig getum við trappað útflæðið þar sem fjárfestar kaupa á mismunandi tímum. Ég hvet ráðherra til að íhuga þessa leið.