148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um ráðleggingar sérfræðinga, en hann sagði sjálfur að það sem sérfræðingarnir sögðu væri í rauninni bara: Passið ykkur, við vitum ekki alveg af hverju, en passið ykkur. Það eru engin efnisleg atriði sem við þurfum að vara okkur á. Þeir vita ekki á hverju við eigum að passa okkur, það gæti bara eitthvað gerst, við vitum ekki hvað.

Þannig ég spyr enn og aftur eins og ég spurði hv. þm. Karl Gauta Hjaltason: Hver er vafinn efnislega? Það þarf að útskýra það. Við þurfum að óttast að þetta gerist af því að, hvað? Það vantar alltaf þetta „af því að“. Það er hvergi að finna.

Hv. þingmaður talaði líka um vandamálið með sjálfræðisaldurinn. Það gerðist 1997. Það er dálítið athyglisvert að helstu rökin fyrir því að breyta sjálfræðisaldri úr 16 í 18 ára eru samkvæmt skjölum Alþingis þjóðfélagslegar breytingar. Flestir voru farnir að búa hjá foreldrum til 20 ára aldurs og sjálfræðið hefur í rauninni bara táknrænt gildi hvað það varðar. Það var ákveðið misræmi milli Norðurlandanna sem olli ákveðnum vandamálum. Svo er það náttúrlega barnasáttmálinn.

Einnig er talað um að það verði að gera þetta í rosalega mikilli sátt. Það er aðalatriði. Hér í gær voru greidd atkvæði um það hvort við ættum að lækka kosningaaldurinn úr 18 í 16 ára. 43 greiddu því atkvæði, einn sagði nei, tíu sátu hjá. Eftir venjulegum kosningalögum þá þýðir það 97,7% samþykki. Það er ansi gott samþykki myndi ég segja. Það er ansi mikil sátt myndi ég segja hvað það varðar.

Þannig ég spyr hv. þingmann aftur að því sem ég byrjaði á: Hver er vafinn? Hvað eigum við að óttast efnislega? Hvað getur gerst? Ekki bara að við þurfum að skjálfa á beinunum af því að eitthvað getur gerst, ég veit ekki hvað það er. Hvað nákvæmlega er það sem við þurfum að varast?