148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

starfsemi Airbnb á Íslandi.

[15:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef þegar spurt fyrrverandi ráðherra ferðamála þessara spurninga. Ég fékk sömu svörin: Nei, þetta er á vegum annars ráðherra og eftirlitið er á vegum undirmanna dómsmálaráðherra. Já, það er rétt að það er snúið að vinna þetta eftirlit. Þess vegna þarf að gera það með ábyrgum og áhrifaríkum hætti. Það er alveg borðleggjandi og segir í greinargerð með lögunum sem var breytt hér á sínum tíma, 2014 eða hvað það var, að sýslumaður geti leitað liðsinnis lögreglu við þetta eftirlit. Það þarf liðsinni lögreglu við slíkt eftirlit. Þó að nokkrir tugir af þessum einingum séu nú skráðar eru nokkrar þúsundir óskráðar og greiða ekki hér skatta og skyldur og eru núna gróðrarstía glæpastarfsemi.

Þetta verður einfaldlega að stöðva og þess vegna eru vonbrigði fyrir mig að heyra ráðherrann segja: Við ætlum að bíða í nokkur misseri.

Við erum núna búin að eyða fjórum árum frá því að ég ámálgaði þetta fyrst. (Forseti hringir.) Í fjögur ár hafa þessi fyrirtæki komist upp með að svíkja undan skatti (Forseti hringir.) og eru nú í ofanálag orðin gróðrarstía glæpastarfsemi. Þessu verður að linna.