148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þinglega meðferð málsins hefur á fyrri stigum komið fram lögfræðiálit sem svarar þeim áhyggjum sem snúa að makalífeyri. Samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu, að viðbættu því lögfræðiáliti sem ég er hér að vísa til, skerðast ekki réttindi þeirra sem þarna eiga í hlut við þá breytingu sem hér verður. Ég vék að því í framsögu minni að við leggjum til að ekki gildi sérlög um sjóðinn. Hins vegar er hægt að kveða á um þau réttindi sem menn vilja að gildi fyrir sjóðfélaga eða maka þeirra í samþykktum sjóðsins, það myndi þá kannski frekar reyna á það þar, en þetta er vissulega atriði sem hefur orðið til þess að þingnefndin hefur verið hikandi við að afgreiða málið fram til þessa. Kannski hafa menn lent í tímaþröng en eins og málið horfir við mér eru engar efnislegar athugasemdir komnar fram sem ættu að stöðva afgreiðslu málsins.