148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Það er í anda þess sem sá er hér stendur hefur áður talað fyrir, þ.e. að taka út úr sér gengin aldurstakmörk í alls konar þjónustuveitingum og er það vel. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra um heimildarákvæðið í 3. gr. frumvarpsins um reglugerðarsetningu vegna faglegs matsteymis um skilyrði fyrir dagdvöl. Getur hæstv. ráðherra upplýst um það hvort slík vinna sé farin af stað í ráðuneytinu við þessa reglugerðarsamningu? Ef svo er, verður hv. velferðarnefnd ekki örugglega upplýst um þá vinnu þegar þar að kemur?