148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

innheimtulög.

395. mál
[18:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008.

Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á innheimtulögum. Tilurð þeirra breytinga sem lagðar eru til er annars vegar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 8302/2014 og hins vegar eru lagðar til nokkrar breytingar sem rétt er að gera með tilliti til reynslu af framkvæmd laganna.

Í fyrrnefndu áliti sínu komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að meinbugir væru á innheimtulögum í skilningi 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis og tilkynnti þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra um þá niðurstöðu sína. Umboðsmaður taldi þannig að ekki væri nægilega skýrt hvaða eftirlitsaðili færi með eftirlit með innheimtufélagi í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Eftirlitsaðilar á grundvelli laganna eru tveir, Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit með leyfisskyldum aðilum og Lögmannafélag Íslands fer með eftirlit með innheimtu lögmanna.

Með frumvarpinu er brugðist við ábendingum umboðsmanns með því að tiltaka það með skýrari hætti en verið hafði að Lögmannafélag Ísland fari með eftirlit með innheimtustarfsemi félaga í eigu lögmanna og/eða lögmannsstofa. Mikilvægt er með tilliti til réttaröryggis og neytendaverndar að eftirlitsheimildir og skyldur eftirlitsaðila séu skýrar og ekki leiki vafi á því undir hvaða eftirlitsaðila einstakir aðilar sem stunda starfsemi sem fellur undir innheimtulög heyra. Um nánari reifun á áliti umboðsmanns vísast til greinargerðar frumvarpsins og umrædds álits umboðsmanns.

Aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að gild starfsábyrgðartrygging verði leyfisskilyrði. Svo hefur ekki verið, en hins vegar hefur verið almenn skylda á leyfisskyldum aðilum að hafa gilda starfsábyrgðartryggingu á meðan á starfsemi stendur og í ákveðinn tíma að henni lokinni. Með því að gera gilda starfsábyrgðartryggingu að leyfisskilyrði er aukin vernd kröfuhafa og neytanda.

Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót við 10. gr. laganna þar sem áréttað er að innheimtuaðili sé ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi og innstæðan sé ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og standi utan skuldaraðar við skipti á búi hans. Sambærilega reglu er almennt að finna í öðrum lögum þar sem fjallað er um vörslufjárreikninga og því verður að telja að það hafi verið ákveðin yfirsjón á þeim tíma sem innheimtulög voru sett að ákvæði þess efnis væri ekki í lögunum.

Að lokum er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að fella innheimtuleyfi aðila niður að uppfylltum skilyrðum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Við vinnslu frumvarpsins var það metið hvort leggja ætti til frekari breytingar á lögunum og drög þess efnis yfirfarin í ráðuneytinu. Í ljósi þess að ekki hafa mörg erindi borist ráðuneytinu vegna laganna var ekki talið tilefni til að leggja til viðameiri breytingar. Að svo stöddu var því ákveðið að leggja til þær afmörkuðu breytingar sem felast í frumvarpinu og eru að meginstefnu til vegna ábendinga umboðsmanns Alþingis sem rétt er að bregðast við með skýrum hætti.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr.