148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

lágmarksellilífeyrir.

[15:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í tilefni af framkominni fjármálaáætlun, sem er það stefnuplagg sem helst sýnir á spil ríkisstjórnarinnar, mætti hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson í Kastljós og fór yfir sviðið. Það sem ég vil gera hér að umræðuefni eru orð hans um kjör eldri borgara.

Hæstv. ráðherra sagði að bætur, og átti þá væntanlega við lífeyri eldri borgara, hefðu verið á tímum þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í ríkisstjórn rétt innan við 200.000 kr. á mánuði en hefðu nú hækkað upp í 300.000 kr. Sagði hann 300.000 kr. í sjálfu sér ekki háa framfærslu á mánuði fyrir nokkurn mann en að þetta væru, svo áfram sé vitnað í hæstv. ráðherra, lágmarksbætur sem hefðu gerbreyst á hans vakt.

Klykkti hann svo út með því að segja að stjórnvöld hefðu sett allt umframfé ríkissjóðs í þessa málaflokka undanfarin ár.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort á að hlæja eða gráta yfir þessari fjölmiðlainnkomu hæstv. ráðherra. Þarna leyfði hann sér að fullyrða að búið væri að hækka lágmarksellilífeyri upp í 300.000 kr. þegar hið rétta er að lágmarkslífeyrir eldri borgara er hvorki meira né minna en 239.484 kr., tæplega 240.000 kr., herra forseti.

Líklega munar hæstv. ráðherra lítið um 60.000 kr. til eða frá, en þegar um er að ræða fjórðung af ráðstöfunarfé er vægast sagt ótrúlegt ábyrgðarleysi af fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem fer með fjárveitingavaldið að skella þessu fram með þessum hætti. Varla var það ætlun hans að fara með ósannindi heldur ruglaðist hann mögulega bara smá.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Má vera að loksins sé farið að hilla undir þá kjarabót sem eldri borgurum þessa lands hefur verið marglofað, m.a. af Sjálfstæðisflokknum? Mega eldri borgarar búast við að ráðherrann ætli sér nú fyrir þinglok að leggja fram áætlun um að leiðrétta kjör þessa hóps svo lágmarkslífeyrir nái þessum 300.000 kr. sem hann sagði að væru í sjálfu sér (Forseti hringir.) ekki há framfærsla fyrir nokkurn mann?