148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að nálgast hæstv. ráðherra sem fjölskyldumálaráðherra. Þessi fjármálaáætlun er mjög mikil vonbrigði þegar litið er til hagsmuna fjölskyldufólks. Við sjáum að fyrirhugað er að setja núll krónur til viðbótar í barnabætur og núll krónur til viðbótar í vaxtabætur. Þessir tveir þættir lúta að beinum hagsmunum barnafjölskyldna í landinu. Í þriðja lagi eru vonbrigði sem lúta að húsnæðisstyrkjum. Við sjáum á málefnasviði sem heitir húsnæðisstuðningur að það er það málefnasvið sem fær hvað mesta krónulækkun á þessum fimm árum. Aftur sýnir það algert metnaðarleysi þegar kemur að húsnæðisstuðningi gagnvart fólki í landinu.

Mig langar að fá skýringar frá hæstv. ráðherra hvort hann styðji það að setja ekki krónu til viðbótar í barnabætur og vaxtabætur og hvort hann styðji og þyki réttlátt að helminga þá fjárhæð sem fer í uppbyggingu á leiguíbúðum. Við sjáum að húsnæðiskostnaður ungs fólks er meira íþyngjandi núna en áður samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs. Við sjáum sömuleiðis að Öryrkjabandalagið, sem stendur nú ráðherranum nærri sem hagsmunasamtök sem starfa á hans málefnasviði, hafa kallað þessa fjármálaáætlun ávísun á fátækt og eymd. Það er augljóslega víða pottur brotinn hvað þetta varðar.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: En hann kannski sammála orðum hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag sem var mjög skýr í afstöðu sinni til barnabóta þegar talaði með sínum hætti um að barnabætur ættu í raun bara að fara til allra fátækasta fólksins. Nú skerðast barnabætur við 242.000 kr. á mánuði. Finnst ráðherranum það eðlilegt að byrja að skerða barnabætur við svo lágar tekjur? Finnst honum líka eðlilegt að barnabætur hjá hjónum með eitt barn sem eru með 470.000 kr. á mánuði hvort, eru allar barnabætur farnar? Er það kerfi sem hann getur stoltur varið í þessum ræðustól?