148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði hér áðan að það væri hægt að koma á starfsgetumati fyrir lok þessa árs. Hann talar gegn betri vitund. Í dag er 11. apríl. Það er ekki hægt á þeim tíma sem eftir lifir þessa árs að komast að samkomulagi um starfsgetumat, gera nauðsynlegar ráðstafanir á vinnumarkaði, bæði opinberum og almennum, svo þeir sem hafa skerta starfsgetu geti komist til starfa, það er ekki búið að semja við VIRK. Það er ekki tími til þess að gera þetta, ráðherra talar gegn betri vitund.

Annað vil ég segja varðandi öryrkja. Það kostar ef ég man rétt, hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá ef svo er ekki, um 6 milljarða af afnema krónu á móti krónu skerðingu. Mig minnir að ég hafi heyrt þessa tölu hér í þingsalnum um daginn. Sé þetta rétt tala er þetta akkúrat sama talan og ríkisstjórnin er nú að afsala sér með því að leggja niður bankaskatt. Og af því að hv. þm. Willum Þór Þórsson situr við hlið hæstv. ráðherra þá sagði hann um daginn að bankarnir myndu skila þessum 6 milljörðum til neytenda. Hann á skilið bjartsýnisverðlaun. Ég hef ekki heyrt aðra eins bjartsýni síðan ég las Rauðhettu og úlfinn í gamla daga.

En það sem hægt er að gera strax er að hætta við að afnema bankaskatt og aflétta krónu á móti krónu skerðingu hjá öryrkjum. Það er hægt að ganga að tillögum Miðflokksins um að atvinnutekjur aldraðra rýri ekki lífeyristekjur þeirra. Hæstv. ráðherra getur beitt sér fyrir því að ríkisstjórnin samþykki framlagt frumvarp Miðflokksins um að ríkisstarfsmenn megi ef þeir kjósa svo vinna til 73 ára aldurs. Með þeim aðgerðum yrði búið að leiðrétta fyrir þá sem best hafa það. Síðan getur hæstv. ráðherra tekið undir þá stefnu Miðflokksins fyrir þá sem lakar hafa það að afnema virðisaukaskatt af lyfjum.

Allt er þetta hægt að gera strax en ekki setja á stofn starfshóp með verkefni sem er ómögulegt.