148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta. Þarna tel ég að við höfum tækifæri í því að dregið hefur úr hagvexti. Ég tel að hið opinbera hafi tækifæri til að koma með innspýtingu inn í til að mynda samgönguframkvæmdir og aðrar einskiptisframkvæmdir, nýta þar eignatekjur úr fjármálakerfinu, eins og ég boðaði sömuleiðis fyrir kosningar að væri mikilvægt að gera, og koma þannig á því sem ég vil kalla jafnvægi milli þess að greiða niður skuldir og byggja upp. Það er vissulega mikilvægt að greiða niður skuldir og þær hafa verið greiddar niður hratt og örugglega undanfarin ár og eru áfram á niðurleið allt þetta tímabil þessarar fjármálaáætlunar. En um leið megum við ekki gleyma því að við getum ekki leyft innviðunum að grotna niður. Þegar við skoðum muninn á þessum fjármálaáætlunum, til að mynda þegar kemur að samgöngumálum, fyrst hv. þingmaður er í samanburði, er verið að bæta verulega í til samgöngumála, enda held ég að við hljótum að vera sammála um að það hljóta að vera ákveðin efnahagsleg rök fyrir því að við tryggjum að innviðirnir standi undir nafni, að við látum ekki okkar eignir, svo að ég setji þetta yfir á bókhaldsmál, rýrna á meðan við erum of upptekin við að greiða niður skuldir. Það er í raun og veru hin einfalda hagstjórnarlega spurning sem hlýtur að koma upp þegar við erum stödd í því að greiða niður skuldir, sem var mikið áherslumál í síðustu fjármálaáætlun, og þurfum hins vegar að gæta að eignum okkar. Það eru auðvitað innviðirnir sem eru okkar eignir.

Hv. þingmaður talar um skattamálin. Ég hlustaði á hv. þingmann í gær sem talaði um að við hefðum afsalað okkur ákvörðunarvaldi í skattamálum og afhent aðilum vinnumarkaðarins lyklana. Ég ætla að leyfa mér að andmæla þessu algerlega. Í síðustu fjármálaáætlun voru vissulega boðaðar heilmiklar skattbreytingar, lækkun á virðisaukaskatti og tilfærsla á ferðaþjónustu upp í efra þrep virðisaukaskattskerfisins. Það var gert algerlega án alls samráðs við greinina. Það sem ég gagnrýndi var að sú breyting, og það kom fram í máli mínu þá, var gerð, eða lögð til skulum við segja, því hún var náttúrlega ekki gerð, án þess að fullnægjandi greiningar lægju fyrir á því hvaða áhrif þetta myndi hafa á (Forseti hringir.) þessa stærstu útflutningsgrein landsins. Það sem ég er einfaldlega að segja hér er að við þurfum bara að vinna öðruvísi. Ég hefði haldið að hv. þingmenn í þessum nýja flokki væru mjög sammála mér um breytt vinnubrögð í þessu máli.