148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svör hans.

Varðandi skógræktina er spurningin ekki um að orðið skógrækt komi fram í þessari þykku bók. Það er alls ekki spurning um það, ég var ekki að meina það. Ég saknaði markmiða í skógrækt, markmiða og markmiðssetningar, það var það sem ég var að meina.

Varðandi stofnun þjóðgarðs á hálendi Vestfjarða er náttúrulega augljóst eftir hverju ég er að leita, ég er að leita eftir því hvort Vinstri grænir ætli virkilega að láta það gerast á sinni vakt í ríkisstjórn undir forystu þeirra, að Hvalá í Ófeigsfirði verði virkjuð með öllum þeim röskunum sem eiga sér stað varðandi þá virkjun, ef hún fer í gagnið. Er það ástæðan fyrir því að þeir beita sér ekki fyrir því að þessi sjálfsagði þjóðgarður verði stofnaður?

Fleiri spurningar eru hér. Ég vil koma að málefni sem snertir meðhöndlun úrgangs og vil spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hans til plastnotkunar. Hvað hyggst flokkur hans gera í þeim málefnum? Ég hef lesið bókina þykku að þessu leytinu til og þar er nefnd aðgerðaáætlun um plast. Ég vil fá nánari útskýringar á hvað það er. Hvernig ætlar ráðherra að koma í veg fyrir eða minnka síaukna plastnotkun sem hefur í för með sér gífurlega mengun í hafinu og ógnar lífríki sjávar, sem við byggjum allt okkar á? Hvernig? Ætlar hann að gera það með skattlagningu á algenga plastnotkun, t.d. plastpokanotkun? Skattleggja? Ætlar hann að banna notkun á t.d. plastpokum, eins og tillaga hefur verið gerð um hér fyrr í þinginu? Eða niðurgreiðslu á notkun annarra lausna? Bara fá örlítið nánar um þetta. Hvernig á að gera þetta?

Annað atriði sem ég ætlaði að tala um líka, og hef kannski nokkrar sekúndur til þess, varðar endurheimt votlendis. Mun ráðherra styðja við og standa að stofnun votlendissjóðs?