148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð og ekki síst fyrir hvað hæstv. ráðherra hefur gengið vel að fá fjármagn til síns mikilvæga málaflokks í fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir. Ég þarf ekkert að endurtaka tölur um mikla aukningu eða prósentustig í því. Það er augljóst að það er stórsókn fram undan í samgöngumálum og það er vel.

Mig langar að beina sjónum mínum aðeins nær okkur í þessum sal og umhverfi okkar hér í kring, þ.e. að höfuðborgarsvæðinu. Það hefur komið fram fyrr í umræðunni að í stjórnarsáttmála er kveðið sérstaklega á um stuðning við borgarlínu. Þegar fjármálaáætlun er lesin er augljóst að ekki er mikið rætt um beinan stuðning þar. Á því eru að mörgu leyti mjög eðlilegar skýringar. Þær viðræður sem sveitarfélögin og ríkisvaldið hafa boðað á milli þessara stjórnsýslustiga eru ekki hafnar. Þess vegna vildi ég nýta þetta tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um þetta og spyrja hvort hann sé sammála mér um mikilvægi þess að taka þátt í þeim viðræðum af fullum krafti og um mikilvægi þeirrar samgöngubótar sem borgarlínan verður, ekki síst frá umhverfis- og loftslagssjónarmiðum. Mun hæstv. ráðherra taka frumkvæði í að fá sveitarfélögin að borðinu og vinna að því góða verkefni sem borgarlínan er?