148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég spyr hann og ætla að trúa því að það hljóti að verða forgangur hjá honum að taka slysamesta, hættulegasta og fjölfarnasta kafla landsins, þ.e. Reykjanesbrautina frá Kaldárseli að Straumsvík.

Einnig vil ég spyrja ráðherra út í flugvelli. Mér skilst að legið hafi við ófremdarástandi fyrir stuttu þegar Keflavíkurflugvöllur lokaðist. Það þurfti að beina allri flugumferð til Egilsstaða og Akureyrar. Þar skildist mér að komið hefði upp hálfgert ófremdarástand vegna þess að dráttarbíla vantaði til að draga þoturnar á báðum stöðum. Þetta eru fjárhæðir upp á 30–40 milljónir. Ég spyr: Eru það ekki einhverjir smáaurar og smámál sem hægt er að kippa í liðinn? Er þetta einhvers staðar á dagskrá? Bara upp á flugöryggið. Flugumferðin eykst alltaf um Keflavíkurflugvöll og það þarf ekki að segja okkur annað en að ef eitthvað gerist þar verður ófremdarástand á ákveðnum tímum. Gífurlegur fjöldi flugvéla lendir þar. Þess vegna verðum við að hafa bæði Akureyri og Egilsstaði tilbúna sem varaflugvelli.

Einnig vil ég benda á að mjög hættulegur kafli er frá Vík að Höfn. Er ekki kominn tími á að við förum að hugsa um hraðann á þeim kafla? Er hægt að leyfa 90 km hraða á kafla sem er svo hættulegur að það liggur við stórslysi ef eitthvað gerist? Verðum við ekki að breyta einhverju um hraðatakmarkanir á þeim vegum sem vitað er að eru stórhættulegir og þola ekki þann mikla hraða sem þar er leyfður?