148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:42]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Mér brá óneitanlega í brún þegar ég sá í þessari fjármálaáætlun að veiðigjöldin 2018 lækka um 3 milljarða frá fjárlögum sem samþykkt voru í desember sl. Samkvæmt fjárlögum 2018 áttu veiðigjöldin að skila 10 milljörðum til þjóðarinnar en í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 7 milljörðum í ár. Skýringin sem gefin er í áætluninni er að núverandi lög um veiðigjöld renni út í lok árs og að áætlanir séu um betri innheimtu í kjölfarið.

Ég tek undir að veiðigjöldin eru meingölluð og er fylgjandi leigutekjum af tímabundnum aflaheimildum frekar en gjaldtöku af hagnaði sem býður upp á alls kyns bókhaldsbrellur, auk þess sem lóðrétt samþætting sjávarútvegsfyrirtækja býður upp á þann möguleika að stórútgerðir flytji út stóran hluta hagnaðarins.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Með hvaða hætti geta ósamin lög sem taka gildi árið 2019 lækkað veiðigjöldin, sem falla til árið 2018, um 3 milljarða? Ef nýja löggjöfin er tilbúin vil ég að hæstv. ráðherra skýri okkur frá þessu nýja fyrirkomulagi. Eins vildi ég vita með hvaða lýðræðislega hætti vinna og undirbúningur að nýju löggjöfinni hefur verið.

Að lokum: Hvað hefur breyst á þessum þremur og hálfa mánuði síðan fjárlög voru samþykkt sem gerir það að verkum að veiðigjöldin lækka um 3 milljarða? 3 milljarðar eru engir smápeningar. Það mætti fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi eitt um tíu stykki fyrir þessa fjárhæð. Þjóðin á rétt á sanngjörnum arði af fiskveiðiauðlind sinni.