148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:54]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sagði reyndar í þessum hluta Evrópu. Þegar ég var að tala um þennan mikla áhuga sem ríkir á tvíhliða viðræðum og tvíhliða samningum við Evrópusambandsríki og við einstök ríki var ég meira að viðra þau sjónarmið sem maður hefur orðið var við innan úr flokki hæstv. utanríkisráðherra og öðrum flokkum en að ég væri að viðra hugmyndir ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það megi segja að í skýrslu hæstv. ráðherra sé súmmerað upp samband Íslands við Evrópusambandið. Á bls. 11 þar sem verið er að tala um EES-mál stendur:

„Ísland á sæti án atkvæðisréttar í stjórnarnefndum þeirra undirstofnana framkvæmdastjórnar ESB sem EFTA-ríkin innan EES eru þátttakendur í.“