148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú þegar fyrri umr. um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er að ljúka er full ástæða til að þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum fyrir umræðurnar. Fram hafa komið mörg sjónarmið og mikið verk er fram undan í nefndastörfum. Hér hafa komið fram áköll um aukin útgjöld í hina ýmsu málaflokka. Á sama tíma hafa komið fram sjónarmið um að hér sé óvarlega farið. En tölum ekki niður það sem vel er gert þótt við séum ósammála í mörgu með því að segja að ekkert sé gert. Það er ekki góð reiðlist að slá í klárinn og toga í taumana í sömu andránni og því ósennilegt að við náum saman um allar þessar ábendingar. En ég treysti þingmönnum til að halda sínum sjónarmiðum á lofti það sem eftir lifir vetrar í þingstörfunum.

Umræðurnar hafa um margt verið góðar og málefnalegar. Ég hef í það minnsta veganesti inn í nefndavinnu næstu vikurnar. Fyrirkomulag umræðunnar hefur verið með þeim hætti að góður tími hefur gefist til þess að ræða við hvern fagráðherra fyrir sig og er það vel.

Þetta er í þriðja sinn sem fjármálaáætlun er lögð fram, í öll skiptin hefur það verið gert við sérstakar aðstæður. Það er nokkuð ljóst að halda þarf til haga þeim athugasemdum sem komið hafa fram um það hvernig vinnulagið gengur fyrir sig. Ég treysti því að fram fari ítarleg greining á fjármálasviðum ráðuneytanna á því hvernig hægt er að vinna markvissar og gera enn betur.

Herra forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er uppbyggingaráætlun, umbótaáætlun. Við erum að stórauka útgjöld til samneyslunnar og til fjárfestinga í innviðum. Ég er stolt af þessari áætlun. Það er full ástæða til að leggja áherslu á það að þetta er áætlun sem við getum verið ánægð með og við stefnum á að fjárfesta fyrir 338 milljarða í samfélagslega innviði á næstu árum gangi forsendur áætlunarinnar eftir. Við erum að byggja upp og munum gera það áfram.

Að sama skapi verður innspýting í rekstur okkar allra mikilvægustu sameiginlegu verkefna; heilbrigðis-, mennta-, velferðar- og samgöngukerfis.

Við sögðum fyrir kosningar að félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar væri grundvallaratriði, að það yrði að auka framlög til opinberrar heilbrigðisþjónustu, að það yrði að stemma stigu við gjaldtöku af sjúklingum og það þyrfti að efla geðheilbrigðismál og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Þannig er forgangsröðunin í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og hún kemur öllum til góða.

Framlög til heilbrigðismála aukast um 40 milljarða á ári til viðbótar við þá 20 milljarða sem við settum í fjárlög þessa árs og með því getum við tryggt fjármögnun heilbrigðisstofnana, dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga og haldið áfram að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu úti um allt land eins og ákall hefur verið um.

Mörg brýn verkefni eru á borði ríkisstjórnarinnar og eitt af þeim er samráð við hagsmunasamtök örorkulífeyrisþega um umbætur á almannatryggingakerfinu sem eiga að miða að því að bæta kjör. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir verulegri aukningu á árlegum framlögum til örorkulífeyrisþega. Þau munu aukast um 4 milljarða og uppsafnað um 20 milljarða og til viðbótar er gert ráð fyrir fjármunum til að mæta lýðfræðilegri þróun á þessum tíma. Niðurstaða samráðsins um umbætur mun svo leiða af sér breytingar á fjárhæðum þegar árleg endurskoðun fer fram og niðurstaðan liggur fyrir. Þess vegna er ekki málefnalegt að segja að þessi hópur sé algerlega skilinn eftir en við erum, að ég tel, öll sammála um að alltaf sé hægt að gera betur og gera það hraðar.

Frítekjumark eldra fólks var hækkað um síðustu áramót eins og ákall var um og allir flokkar lofuðu og hálfur milljarður hefur verið settur á þessu ári til að lækka gjaldskrá tannlækna vegna eldri borgara og öryrkja og síðan 1 milljarður á ári á tímabili áætlunarinnar. Sem betur fer búa flestir eldri borgarar við góð lífskjör en ekki allir og bæta þarf kjör þeirra sem eru með afar takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og eru hætt á vinnumarkaði. Huga þarf að þeim hópi og það á að gera sérstaka úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi. Gerðar verða tillögur til úrbóta og þeim verður fylgt eftir.

Í menntamálum hefur framhaldsskólunum verið skilað fjármunum sem spöruðust við að stytta nám til stúdentsprófs og í raun bætt í. Það þýðir stóraukin framlög á hvern nemanda. Fyrir háskólana er bætt verulega í, 2 milljarðar í fjárlögum þessa árs og tæpir 3 til viðbótar á næstu fimm árum. Við þurfum líka að setja vinnu í að finna út úr því nákvæmlega hvað það er sem ber í milli okkar og meðaltals OECD-landanna, en það liggur ekki alveg ljóst fyrir eins og fram kom í máli menntamálaráðherra í gær.

Eins og jafnan áður voru umhverfismál meðal helstu áhersluatriða Vinstri grænna í aðdraganda síðustu kosninga. Við höfum lengi vakið athygli á nauðsyn þess að auðlindanýting verði sjálfbær og að brugðist verði við loftslagsbreytingum af manna völdum, auk margs annars sem fellur undir umhverfis- og auðlindamál. Fjármálaáætlunin ber skýran vott um áherslur Vinstri grænna á þessu sviði þar sem útgjöld til umhverfismála eru aukin um rúman þriðjung að meðtöldum fjárlögum yfirstandandi árs. Það munar um minna og nú er þess loksins að vænta að unnt verði að sinna ýmsum brýnum verkefnum á þessu sviði betur en áður.

Við Vinstri græn sögðum fyrir kosningar að við vildum leiða næstu ríkisstjórn og stuðla að því að hér yrði byggt upp. Of mikill tími hefur glatast í tíðum kosningum síðustu ára. Við sögðum að til þess að tryggja lága verðbólgu og vaxtastig þyrfti ríkisfjármálastefna að haldast í hendur við peningastefnu og að byggja þyrfti á varkárni og réttlátri skiptingu gæðanna. Það erum við að gera.

En við gerum það ekki ein. Þess vegna er líka eitt brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnar að eiga gott samstarf við verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins, m.a. til að reyna að ná sátt um endurskoðun tekjuskattskerfisins. Nefnt hefur verið að skoða breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili milli t.d. vaxta- og barnabóta þar sem markmiðið er að draga úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa. Við þurfum að sjá hér heildstætt kerfi sem tekur jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar. Við ætlum okkur að vera búin að sjá til lands á haustmánuðum áður en við afgreiðum fjárlög næsta árs.

Herra forseti. Við þekkjum öll umræðuna um ástand vegakerfisins. Viðhaldi hefur verið ábótavant og allt of margir vegir koma afskaplega illa undan þeim vetri sem nú er að ljúka, að við tölum ekki um aukningu ferðamanna á vegunum.

Það kom fram í máli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í gær, í svari við spurningu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, að eitt af verkefnum sem mikilvægt er að ráðast í er að auka almenningssamgöngur, ekki síst til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Í stjórnarsáttmálanum segir að við ætlum að styðja við það verkefni. Ráðuneytið og Vegagerðin eru komin í stýrihóp Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til þess. Núna þegar við birtum fjármálaáætlun höfum við ekki klárað viðræðurnar við sveitarfélögin og ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur sett í sínar þriggja ára áætlanir fjármuni til að fara í þessa uppbyggingu. Það var að heyra á ráðherra að það myndi ekki standa á honum að fara í viðræður eftir sveitarstjórnarkosningar við sveitarfélögin að koma þessu brýna verkefni á koppinn. Ekki síst með þann forsætisráðherra sem hér er við stýrið get ég lofað því að það verður ekki flókið verkefni að koma því á koppinn.

Við erum sem sagt að gera átak í samgöngumálum. Við bætum ríflega 5 milljörðum við árlega þannig að árlegt framlag nemur um 16,5 milljörðum. Að auki verða framlög til fjárfestinga í samgönguinnviðum um 124 milljarðar á tímabili áætlunarinnar. Ég bið fólk því að fara varlega þegar það segir að ekkert sé gert.

Herra forseti. Hér hef ég farið yfir það í stuttu máli að við munum nýta það svigrúm sem er til staðar til að koma með kröftuga innspýtingu í hagkerfið, nú þegar hagvöxtur dregst saman hraðar en spár gerðu ráð fyrir á síðasta ári. Þessi áætlun tryggir fjárframlög til þeirrar sóknar fyrir íslenskt samfélag sem boðuð er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og er ástæða þess að þessi ríkisstjórn var mynduð. En við verðum líka að hafa það hugfast þótt væntingar séu gríðarlega miklar, og ég geri mér grein fyrir því, að við leysum ekki öll mál samfélagsins á skömmum tíma en hér erum við svo sannarlega að hefja vegferðina.

Ég hef fylgst með umræðum síðustu þriggja daga og ég hlakka til nefndarstarfanna næstu vikurnar. Nú í síðustu heilu viku vetrar er passlegt að vera svolítið bjartsýn á að þær góðu umræður sem hér hafa farið fram geti af sér gott starf í nefndunum. Ég treysti því að við gerum þetta vel og við gerum það saman.