148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Þessi vinnubrögð, að það liggi ekki fyrir með sæmilegum fyrirvara hvaða ráðherrar eru til svara hér í fyrirspurnartímum, eru náttúrlega algjörlega óhafandi og óboðlegt.

Það er ekkert leyndarmál að minnsta kosti að í sumum af smærri þingflokkunum hérna þá er lagt á ráðin um það á þingflokksfundum hvernig menn skipta sér á fyrirspurnir og þurfa auðvitað að hafa í því sambandi glöggar upplýsingar um hvaða ráðherrar eru til svara. Góð og gagnleg fyrirspurn, hún auðvitað kallar á undirbúning og ég leyfi mér að beina því mjög eindregið til forseta að það verði bætt úr skák í þessu efni og að það liggi fyrir klárt og kvitt með góðum fyrirvara hverjir verði til svara.