148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[17:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið, sérstaklega seinni hluta þess. Það er mjög ánægjulegt að vita að það sé í undirbúningi að styrkja almannaréttinn.

Það er ein spurning í viðbót, hún tengist þessu kannski óbeint, um það þegar kemur að umsjón, ábyrgð og eignarhaldi. Hér er liður þar sem segir að stjórnvöld móti virka stefnu um uppkaup ríkis á landi og/eða mannvirkjum, m.a. til að leysa úr ágreiningsmálum o.s.frv. Ég get í sjálfu sér alveg skilið það, við höfum svo sem nýleg dæmi, en ég er á hinum vængnum og velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti tekið undir með mér þegar ég held því fram að það sé a.m.k. hægt að færa rök fyrir því að náttúruvernd sé betur komin í höndum einkaaðila en hins opinbera. Við skulum rökræða það einhvern tímann.

Ég er líka að velta fyrir mér almennt um eigandastefnu ríkisins, ekki bara þegar kemur að því að leysa úr ágreiningi eins og lesa má úr þessu, heldur líka að það eru fleiri hundruð jarðir sem ríkið á, mismerkilegar jarðir, eyðijarðir, sumar er skynsamlegt og rétt að ríkið eigi, sögulega eða út frá einhverjum náttúruverndarsjónarmiðum o.s.frv., en mikill meiri hluti þessara ríkisjarða er með þeim hætti að það eru engin rök fyrir því að ríkið haldi eignarhaldi á þeim. Ég hefði haldið að það ætti að vera hluti af einhverri slíkri stefnumótun, að það sé a.m.k. bent á það í stefnumótun um landsáætlun að ríkið móti sér almennt eigandastefnu þegar kemur að jarðnæði á Íslandi.