148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[18:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir. Ég held að það sem við erum að ræða snúist kannski fyrst og fremst um hvernig mismunandi tegundir í vistkerfum hafa áhrif hver á aðra. Þeir mófuglar sem hér voru við landnám hafa þá verið í því sama vistkerfi og refurinn og þar verið einhvers konar samskipti á milli sem einkenna samskipti, svo ég fái að sletta, dínamík, sem gildir á milli afræningja og bráðar. Ég held að það sé eitthvað sem er bara einfaldlega hluti af eðlilegum framgangi í vistkerfum, sama hvort það er hérlendis eða annars staðar. Það er svona skýringin á þessu.

Minkurinn kom hingað sennilega upp úr 1930 er talinn hafa valdið meiri usla, má segja, vegna þess að hann er viðbót inn í vistkerfið og hefur þar með meiri afgerandi áhrif. Eða aukin áhrif, getum við sagt, á fuglalíf og reyndar fleiri tegundir eins og fiska í ám og vötnum.

Þetta er, held ég, endalaust þrætuepli með refinn og minkinn. Ég held að ég láti þessu lokið í bili. Við ræðum þetta einhvern tíma síðar.