148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari byggðaáætlun sem er lögð fram á Alþingi í dag þar sem á að styrkja byggðir og halda landinu í byggð, öllu landinu, og styrkja sérstaklega þær byggðir sem standa verulega höllum fæti. Þetta er mikið plagg og ítarlegt og ekki vantar nú fyrirheitin, svo sannarlega ekki. Þetta eru tugir ef ekki hundruð liða sem eru þarna taldir upp. Ég hef auðvitað nokkrar spurningar og hugleiðingar sem koma upp í hugann.

Í fyrsta lagi varðandi rafmagnsaðgang allra landsmanna, þ.e. til smáiðnaðar, þriggja fasa rafmagn. Hæstv. samgönguráðherra veit það eins vel og ég að byggðir á Suðurlandi hafa einmitt kvartað yfir því að þurfa að borga svokallað flýtigjald eða leggja í mikinn kostnað við breytingu á tækjum og tólum. Það stendur í tillögunni í B.1. varðandi þrífösun rafmagns: „Skoðað verði að veita styrki til að greiða hluta af flýtigjaldi…“ Er ekkert frekar um þetta en að það verði skoðað að veita styrki til þess að jafna þennan mikla aðstöðumun á milli þeirra sem ætla að fara út í atvinnurekstur úti á landi og svo miðað við þá sem eru annars staðar?

Ýmislegt annað dettur mér í hug. Mér dettur t.d. í hug sóknaráætlanirnar. Í sóknaráætlunum eru landshlutar, þeir eru átta, og ég hef lengi haft þá hugmynd sem ég vil spyrja um: Hefur ráðherra eða ríkisstjórnin ekki íhugað það að setja Vestmannaeyjar þar sem sérstakan landshluta, þ.e. níunda landsvæðið?