148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir þessa ræðu. Hann kom víða við í ræðu um þessa þingsályktunartillögu um byggðaáætlun. Ég hjó eftir nokkrum punktum sem eru mjög stórir, þar á meðal um varaflugvelli og uppbyggingu þeirra. Við höfum talað um að fjölga gáttum inn í landið og þétta öryggisnet flugsamgangna og fyrir þinginu liggur tillaga um að bæta varaflugvelli við á Sauðárkróki, Alexandersflugvelli. Sér hv. þingmaður þann flugvöll fyrir sér sem varaflugvöll? Myndi það ekki koma sér vel til að auka öryggi flugvalla og uppbyggingu innanlandsflugs sem og flugs að utan?

Eins spyr ég um þrífösun rafmagns, en þingmaðurinn kom inn á það að fara svipaða leið og gert var í sambandi við ljósleiðaravæðingu. Þegar ég vann í þessum geira fyrir 30 eða 40 árum þá var verið að tala um að hraða þyrfti þrífösun rafmagns í sveitum landsins. Það var löngu fyrir daga ljósleiðarans. Einhvers staðar á leiðinni hefur ljósleiðarinn tekið fram úr þriggja fasa rafmagninu og sætir mikilli furðu í mínum huga.

Síðan ætla ég að koma inn á önnur mál í síðara andsvari, byrja á þessu.