148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er gott að heyra að þingmaðurinn er sammála mér í því að þrátt fyrir að vissulega muni þetta þýða vinnu fyrir sveitarfélögin í einhverjum tilvikum sé tæplega hægt að líta á þetta sem íþyngjandi verkefni fyrir þau. Ég er sammála þingmanninum í því að húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og húsnæðisstefna eiga alls ekki að snúast eingöngu um stuðning sveitarfélagsins í félagslega hlutanum. Þær eiga eðli máls samkvæmt að snúast um eitthvað miklu meira og raunar hafa að minnsta kosti einhver sveitarfélög gert húsnæðisáætlanir í þá veru. Það sveitarfélag sem ég þekki best til hefur að minnsta kosti gert það, þ.e. Kópavogur. Þar hefur meðal annars verið gerð býsna ítarleg húsnæðisstefna þar sem gert er ráð fyrir að skilyrða inn í skipulagsskilmála hverfa, t.d. hvað eigi að vera mikið af leiguhúsnæði, hvað mikið af tilteknum tegundum húsnæðis og hvað mikið af félagslegu húsnæði. Þessi atriði skipta öll gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar við hugsum til þess að byggð verði ekki allt of einsleit og íbúar fái tækifæri til að kynnast öllum flötum samfélagsins, að börn gangi í fjölbreytta skóla o.s.frv. Öll þessi atriði eru svo gríðarlega mikilvæg til að tryggja samheldni í samfélaginu og tryggja að allir íbúar sveitarfélagsins hafi skilning og tilfinningu fyrir kjörum þeirra sem þar búa.