148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

húsnæðismál.

469. mál
[23:23]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála þessu. Ég fylgdist með Kópavogsbæ — eða á ég að segja Kópavogsborg — þegar hann var að vinna húsnæðisstefnu sína. Ég held að það hafi verið algerlega til fyrirmyndar. Ég held að mörg sveitarfélög mættu taka það vinnulag upp.

Ég tek heils hugar undir það að fjölbreytni byggða er mjög mikilvæg. En ég held að mörg sveitarfélög hafi markað sér þá stefnu í aðalskipulagi að tryggja að húsnæði sé til staðar fyrir alla aldurshópa og fólk í alls konar aðstæðum. Ég tek undir það, ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég var að ræða þetta hér í ljósi þess að nú er verið að leggja til að Íbúðalánasjóður fái mjög útvíkkað verkefni, þ.e. að taka við þessum húsnæðisáætlunum og að þær snúi ekki eingöngu að félagslegu húsnæði heldur að húsnæðismarkaðnum í heild sinni. Þá held ég að það sé mikilvægt að horfa til allra þátta og velti fyrir mér líka samstarfi við önnur ráðuneyti og aðrar undirstofnanir sem hafa með þetta að gera. Þá er ég fyrst og fremst að leggja áherslu á að tryggja að við séum ekki að gera sömu hlutina á mörgum stöðum, að við séum að verja ríkisfé vel. Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan að upplýsingar séu aðgengilegar markaðnum, ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Gögnin eru öll þarna til, þetta er bara spurning um að setja þau á aðgengilegt form þannig að sem flestir geti nálgast þau.