148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla.

116. mál
[19:52]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni fyrir þetta álit utanríkismálanefndar sem fjallað hefur um tillögu Vestnorræna ráðsins um úttekt á stofnun vestnorrænna eftirskóla. Þetta hugtak er okkur hér á landi ekki tamt á tungu eins og fram kom hjá framsögumanni. Og ekki er það kunnuglegt í skóla- og fræðsluumhverfi okkar, eins og nefndin fjallaði um. En þetta er þekkt víða á Norðurlöndum. Niðurstaða og breytingartillaga, sem utanríkismálanefnd hefur samþykkt, er hins vegar jákvæð og uppbyggileg. Kjarninn í tillögunni er sá að vilji sé til að skoða með opnum huga möguleika ungmenna á Vestur-Norðurlöndum, sem eiga svo margt sameiginlegt, til að kynnast og fræðast um menningu, atvinnuhætti og tungumál nágrannalandanna.

Í því sambandi er nærtækt að horfa til gamalgróinnar hugmyndafræði um lýðháskóla sem Íslendingar þekkja að góðu einu. Sérstöku lífi hefur verið blásið í starfsemi þeirra á Íslandi á síðustu misserum, t.d. fyrir austan, og ferskasta dæmið er stofnun lýðháskóla á Flateyri sem er að hefja starfsemi sína, í faðmi fjalla blárra, þar sem tækifæri gefst til menntunar á rótgrónu og rómuðu atvinnu- og menningarsvæði.

Það verður því spennandi að fylgjast með hvort ekki verður unnt að þróa þær hugmyndir sem Vestnorræna ráðið hafði í huga og þétta enn á markvissan hátt góð samskipti við nágrannaþjóðir okkar og vini.