148. löggjafarþing — 54. fundur,  24. apr. 2018.

vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum.

117. mál
[20:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna og nefndarálit utanríkismálanefndar um tillögu Vestnorræna ráðsins um vestnorrænt samstarf um menntun í sjávarútvegsfræðum. Það að efla þekkingu og færni í þessari öflugu atvinnugrein allra vestnorrænu þjóðanna er verðug áskorun. Það að auka virðingu fyrir þeim auði sem býr í hafinu, auka verðmætin enn frekar og þróa vinnsluna, mæta kröfum og venjum og hefðum í matarmenningu ólíkra markaða er áskorun. Það að skapa sjávarútvegi og iðnaði honum tengdum verðugan sess er verkefni okkar. Það að setja greinina á stall með mikilvægri matvælaframleiðslu og skapa jákvætt og spennandi starfsumhverfi fyrir vel menntað fólk er spennandi viðfangsefni sem bíður handan við hornið.

Þetta eru mikil verkefni og verðug með sannarlega raunhæfum markmiðum. Talsvert samstarf á sér þegar stað eins og fram hefur komið.

Jarðvegurinn er frjór, ef svo má segja. Það er mikill áhugi á þessu sviði meðal viðkomandi nágranna- og vinaþjóða. Hér á landi eigum við eldhuga sem hugsa af mikilli alvöru í þessa veru. Þá eigum við að virkja, auka verðmætasköpun og stöðugleika í þessari mikilvægu atvinnugrein og að því vill Vestnorræna ráðið stuðla.