148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um börnin okkar. Það er kannski ekkert nýtt að sú kona sem hér stendur tali um börnin en ég bara get ekki annað því að þau eru mér svo mikið hjartans mál. Það sem er dapurlegt í stöðunni í dag er að mörg þeirra leiðast út í fíkn og eiga erfitt í samfélaginu okkar. Þau eru á löngum biðlista eftir því að geta fengið úrræði í sínum vímuefnavanda. Það sem meira er: Þau deyja á þessum biðlista. Mörg þeirra deyja á þessum biðlista. Ég er ekki að segja öll, virðulegi forseti, það er lán að svo er ekki, en hvert og eitt einasta þeirra er einu of mikið.

Það sorglega er að ég tek það til mín, sem einn af fulltrúum löggjafans tek ég það til mín, að við skulum ekki grípa kröftuglegar inn, koma með forvarnir og eyða þessum biðlistum og taka utan um það einasta sem hefur virkað almennilega hér, sem heitir SÁÁ. Að við skulum ekki veita nægt fjármagn til að eyða þessum biðlistum, að við skulum ekki sýna viljann í verki og að nú ætlum við að ganga inn í sumarið, í sumarfrí, þingmenn á sólarströnd, væntanlega, á meðan unga fólkið okkar verður enn hér heima deyjandi á biðlistum. Ég kalla eftir því að við gerum eitthvað róttækt í máli unga fólksins, í máli fíklanna okkar, áður en við leggjumst á sólarströnd í sumarfrí.