148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Í fjármálaáætlun er verið að stórauka útgjöld til heilbrigðismála og er það vel. En það má ekki vera markmið í sjálfu sér að bæta eingöngu fjármagni í kerfið, kerfið verður að gera gagn fyrir alla sem þurfa aðstoð óháð efnahag, á sem skilvirkastan hátt. Enn eru samt sjúklingar sem fara til útlanda til að fá bót meina sinna þótt sömu aðgerðir séu í boði hér á landi sem eru jafnframt hagkvæmari. Sömuleiðis heyrum við af einstaklings- og einkaframtaki í til að mynda geðheilbrigðis- og heimahjúkrunaraðstoð sem virðist ekki fá náð fyrir augum kerfisins, kerfis sem er kannski of oft með fyrir fram gefna sýn.

Einkaframtakið virðist því miður oft mæta tregðu og er jafnvel einhvers konar ótti í garð einkarekstrar sem þó hefur verið nauðsynlegur þáttur í heilbrigðiskerfi okkar í áratugi. En það hefur í opinberri umræðu liðið fyrir að vera ruglað við einkavæðingu.

Forseti. Það eru forréttindi að búa í landi þar sem ríkir þverpólitísk samstaða um að vilja veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. Það eru mikil tækifæri í því.

Nýlega kom ríkisstjórnin fram með þá ábendingu að það vantaði heildstæða heilbrigðisstefnu og hefur ráðuneyti heilbrigðismála boðað að slík stefna verði gerð. Það er óskandi að í þeirri vinnu verði hvers kyns pólitískar kreddur látnar eiga sig og það eitt haft að leiðarljósi að kerfið, sama hvernig það er samsett, geri gagn.