148. löggjafarþing — 55. fundur,  25. apr. 2018.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[16:41]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Já, hér er um tilraun að ræða, eins og hv. formaður atvinnuveganefndar sagði. Búið er að auka kvótann til strandveiðiflotans, en það er óverulegt. Þeir fá rúmlega 3% af heildarþorskkvótanum. Þó að það aukist örlítið, kannski um 0,5%, þá myndi ég ekki segja að himinn og jörð væru að farast þess vegna, alls ekki.

Ég fagna auðvitað frumvarpinu og hugsuninni á bak við frumvarpið, en ég tel að aukningin á þessum kvóta og veiðin muni færast á svæði A, vestursvæðið. Ég held það. Og að hin svæðin muni bera skarðan hlut frá borði. Þessum ólympísku veiðum er ekki lokið með þessu frumvarpi. Ég tel stórhættu á því að kvótinn verði búinn í lok júlí þannig að veiðin á svæði B, C og sérstaklega D verði minni en nú er. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins og vona innilega að atvinnuveganefnd komi með viðunandi breytingartillögur.