148. löggjafarþing — 56. fundur,  26. apr. 2018.

stefna í flugmálum og öryggi flugvalla.

[10:46]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Virðulegi forseti. Flugiðnaðurinn á Íslandi er meðal undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Flugið og tengdar greinar eins og ferðaþjónustan standa undir stærstum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar og varlega áætlað má ætla að flugiðnaðurinn einn standi undir rúmum 10% af landsframleiðslu og fer vaxandi ár frá ári. Fjármagn til reksturs flugvalla, flugleiðsögukerfa og flugumferðarþjónustu hefur verið af skornum skammti og ekki í nokkru samræmi við umfang geirans eða framlags hans til þjóðarbúsins. Ísland er með sjöunda stærsta loftstjórnarrými í heimi og hirðir af því arð til að standa straum af kostnaði. En af þeim arði rennur lítið til uppbyggingar og viðhalds samgangna í lofti eða til að tryggja öryggi þeirra milljóna farþega sem fara um íslenska lofthelgi og flugvelli á ári hverju.

Í því samhengi má ekki gleyma að þeim réttindum sem Ísland nýtur fylgir líka ábyrgð sem lýtur að leit og björgun og nothæfi innviða, svo sem eins og flugvalla. Rekstur og viðhald flugvalla er á höndum Isavia ohf. sem er hlutafélag í opinberri eigu. Skemmst er frá því að segja að ástand flugvalla á Íslandi er afar bágborið og vegna fjárskorts stefnir í óefni. Þar ber fyrst að nefna öryggi flugfarþega. Það er ekki hægt að tryggja það sökum vaxandi flugumferðar eins og nýlegt dæmi frá 2. apríl sl. ber vitni um. Þann dag munaði aðeins mínútum að neyðarástand skapaðist. Farþegaþotur á leið til Keflavíkur gátu ekki lent þar vegna ástands flugbrauta og þurftu frá að hverfa til Egilsstaða og Akureyrar sem eru tveir af þremur aðalvaraflugvöllum Keflavíkur, ásamt Reykjavíkurflugvelli.

Þessir flugvellir eru engan veginn í stakk búnir til að sinna hlutverki sínu, einkum vegna þess að akbrautir og flughlöð anna ekki þeirri umferð sem vænta má en einnig vegna þess að tækjabúnaður og flugumferðarstjórn er takmörkuð og ekki til staðar.

Staðreyndin er sú að brýn þörf er á úrlausn öryggismála. Þrátt fyrir umfang flugiðnaðarins og hina gríðarlegu fjárhagslegu hagsmuni ríkisins, sveitarfélaga og rekstraraðila sem liggja undir hafa íslensk stjórnvöld ekki markað stefnu í flugmálum. Ég spyr því hæstv. ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hvort verið sé að vinna að því að marka stefnu ríkisins í flugmálum og hvort leitað hafi verið eftir sérþekkingu fag- og rekstraraðila við mótun slíkrar stefnu.

Í annan stað spyr ég hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið opinber úttekt á ástandi flugvalla sem þjóna millilanda- og (Forseti hringir.) innanlandsflugi með tilliti til öryggis, áreiðanleika, afkastagetu flugbrauta, tækjabúnaðar, flugumferðarstjórnar og þjónustu.