148. löggjafarþing — 57. fundur,  26. apr. 2018.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

287. mál
[19:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa lagt þetta mál fram. Þvert á það sem mörgum öðrum finnst þá finnst mér þetta með áhugaverðari málum. Við erum oft spurð hér á þinginu hvort þetta sé nú merkilegasta og mikilvægasta málið sem við ættum að vera að tala um en það er greinilegt að samfélaginu er mjög annt um þessi mál og þess vegna finnst mér gott að við ræðum þau.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í refsingar í frumvarpinu. Nú lagði ég og fleiri, m.a. þingmenn Viðreisnar, nýlega fram frumvarp sem snerist um að afnema bann við heimabruggun til einkaneyslu. Ég tek eftir því að í frumvarpi hv. þingmanns og flutningsmanna eru breytingar á refsiákvæðum, þó nokkuð viðamiklar að ég fæ best séð, sem ég átta mig ekki fyllilega á. Mig langar að spyrja annars vegar hvort bruggun til einkaneyslu sé enn ólögleg samkvæmt þessu frumvarpi og þá kannski einnig, ef hv. þingmaður getur frætt mig eitthvað meira um það, hvernig refsingum skuli hagað í sambandi við þessi lög.