148. löggjafarþing — 58. fundur,  2. maí 2018.

hvítbók um fjármálakerfið.

[16:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni. Hvítbók er að sönnu afar mikilvæg í þessu efni því að þannig náum við utan um hvaða verkefni við erum að tala um. Öfugt við ýmsa aðra stjórnmálamenn tala ég ekki fyrir einhverjum töfralausnum þegar verið er að leita að leiðum fyrir fjármálakerfið. Þær eru ekki til.

Hæstv. forsætisráðherra rakti í ræðu sinni áðan að ýmis fleiri mál eru undir en bara hefðbundin bankastarfsemi eins og fleiri þingmenn hafa komið inn á. Þar eru einnig undir til að mynda fyrirbæri sem virðast í seinni tíð skipta heimilin og einstaklinga í landinu verulegu máli, fyrirbæri eins og smálánafyrirtækin, bara svo ég nefni eitt dæmi. Hvar eiga þau að falla inn í þetta mynstur? Hvar eiga síaukin bankaviðskipti á netinu og í rauninni sú gjörbreyting sem hefur orðið á hefðbundnum bankaviðskiptum á undanförnum árum að vera? Það fer orðið „enginn“ í banka heldur stunda menn viðskiptin heiman frá sér. Hvar á eignarhaldið á fjármálafyrirtækjunum að vera og þarf það ekki að vera gegnsætt?

Allt þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli og það er ekki að ófyrirsynju sem við þurfum að vanda okkur í þessu máli. Það eru þrátt fyrir allt ekki nema rétt um tíu ár síðan við fórum í gegnum bankahrun og brenndum okkur eins herfilega og ein þjóð getur á einu fjármálakerfi.