148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa góðu umræðu og sömuleiðis hæstv. ráðherra. Við sem hér erum höfum flest lýst yfir stuðningi við kjarabaráttu ljósmæðra með einum eða öðrum hætti. Við gerum okkur flest grein fyrir því að staðan er grafalvarleg. Oft höfum við heyrt að ekki sé hægt ganga að kröfum ákveðinna stétta og sundum er sagt að þær séu of fjölmennar. Það á ekki við hér. Kröfurnar sem settar eru fram eru ekkert gríðarlega háar. Liggur þá vandinn í því að um kvennastétt er að ræða? Ljósmæður hafa brugðið á það ráð að vinna ekki yfirvinnu. Næsti fundur í kjaradeilunni er ekki fyrr en eftir fjóra daga og talað er um að hættuástand geti skapast.

Sex ára nám á háskólastigi á að tryggja viðunandi, verðuga framfærslu. Ljósmóðurstarfið er mikilvægt og hefur áhrif á fjölda fólks. Oft er talað um áhrifastöður í samfélaginu. Oft er talað um áhrifastöður þeirra manna, þeirra karla, sem fara með fjármuni.

Ljósmóðurstarfið er líka áhrifastaða. Það hefur áhrif. Það að vera ljósmóðir hefur mjög mikil áhrif.