148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

kjör ljósmæðra.

[11:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Kjarabarátta sem dregst á langinn og fer í svona hnút, eins og þessi deila virðist að vissu leyti vera í, er alltaf bagaleg; rýrir traust á milli aðila og leiðir fátt gott af sér. Ég tel því að það sé mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að horfa út fyrir boxið og reyna að finna viðunandi lausn sem fyrst.

Ljósmæður eru ein af þeim vaktastéttum sem vinna alltaf af hugsjóninni, eru alltaf til staðar og mæta þegar á þarf að halda. Við þekkjum það hjá vaktastéttum eins og lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum og fleiri góðum stéttum, sem búa líka við aukið álag. Nú eykst álagið mikið hjá ljósmæðrum, fæðingarstöðum hefur fækkað, bráðakomum á Landspítalann hefur fjölgað um 65% frá 2016, háþrýstingur er að aukast og margt annað slíkt, þannig að við því þarf að bregðast og virða það við ljósmæður.

Einnig er mikilvægt að koma inn á stöðuna varðandi menntun ljósmæðra, til að hvetja fleiri til að mennta sig til þessa mikilvæga starfs. Þá þarf að athuga af hverju þær vinna 80% vaktavinnu launalaust, við að sérhæfa sig, sem hjúkrunarfræðingar í náminu til þess að verða ljósmæður.

Ég vil líka koma inn á það hér í lokin að það er mjög mikilvægt, til þess að bæta kjör ljósmæðra og leyfa þeim að þróa starfsvettvang sinn og þá þjónustu sem þær veita sem best, að þær hafi valfrelsi í rekstrarformi við að veita þjónustu; ég nefni heimafæðingaljósmæður, ljósmæður á einkareknum heilsugæslum, heimaþjónustu ljósmæðra o.fl. Ég held að ljósmæður séu best til þess fallnar að þróa þessa þjónustu á sem bestan hátt og þannig að kjör þeirra batni sem mest.