148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Það er rétt, hv. þm. Ólafur Ísleifsson fór ekki beinlínis yfir það út frá þessum spurningum, en margt í ræðu hans lýsti — við höfum aldrei náð til lands í pólitíkinni, í pólitískri umræðu, eða að stíga skrefið til fulls — ágætlega þessum orsakavaldi, verðtryggingunni. Þegar verð hækkar, t.d. af okkar völdum með löggjöf, hefur það áhrif á lánin o.s.frv. Í hinni pólitísku umræðu, eins og gjarnan gerist, höfum við reynt að einangra þetta í einfaldar setningar til skilnings. Aðgerðin að afnema verðtryggingu, eins og við höfum viljað tala um, jafnvel að ganga svo langt að banna hana, er einföld. Þetta er mögulega ein setning í lögum um vexti og verðtryggingu.

En mig langar að spyrja tengt því máli sem ég tel hafa batnað mjög í meðferð hv. efnahags- og viðskiptanefndar og gerði grein fyrir hér í ræðu: Ef niðurstaðan af faglegu mati hópsins, eins og kemur fram í tillögugrein svo breyttri, verður til þess að neytandinn hafi val, og við erum alltaf að reyna að hugsa um neytendavernd í þessu tilliti, um það hvaða vísitölu hann tekur — hann hefur jafnframt val um verðtryggt eða óverðtryggt — erum við þá ekki farin að stíga ansi ákveðin skref í átt að því að neytandinn geti, alla vega eins og þetta hefur verið orðað, dregið sjálfur úr áhrifum verðtryggingar á hagkerfið eins og við vorum að fara yfir hér og hv. þingmaður lýsti svo vel í sinni ræðu?