148. löggjafarþing — 59. fundur,  3. maí 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[15:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa að við hv. þingmaður höfum nálgast málið í ræðum okkar með örlítið mismunandi áherslum. Hann hefur nálgast málið frá sjónarhóli hagstjórnarinnar í víðu og breiðu samhengi. Kemur ekki á óvart þegar hv. formaður fjárlaganefndar á í hlut. En ég einbeitti mér í minni ræðu öllu frekar að áhrifum þessa fyrirkomulags á heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna.

Hv. þingmaður nefnir tvö atriði sem mér finnst ástæða til að staldra við, annars vegar ræðir hann um pólitíska umræðu í þessu sambandi. Það fer nú ekki mikið fyrir henni hér á þessum vettvangi, því miður, verð ég að leyfa mér að segja. Það er þess vegna þeim mun mikilsverðara þegar tækifæri gefast og þessi þingsályktunartillaga hv. þingmanns og flokksfélaga hans er þess vegna góðra gjalda verð; hún stuðlar að og skapar færi á umræðu um málið, líka á breiðari grundvelli eins og við höfum séð hér í dag.

Það er annað orð sem hv. þingmaður nefndi, val. Er ekki spurningin bara um val? Ja, ég vék að því í ræðu minni að neytendur eiga nú þegar að verulegu leyti val. Þeir geta valið á milli verðtryggðra lána og óverðtryggðra. En þá, eins og ég rakti hér í einu af fyrri andsvörum mínum, eru samkeppnisaðstæður á markaði með þeim hætti að ekki er annað að sjá en að bankarnir hafi tekið sig saman um að reka neytendur í náðarfaðm verðtryggingarinnar með þeim hætti að verðleggja óverðtryggðu lánin þannig að fólk sjái þann kost skástan að taka frekar verðtryggt lán en óverðtryggt.