148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um persónuvernd.

[14:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar til þess að beina spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra. Eitt af þeim stóru málum sem hefur verið beðið eftir hér í þinginu lengi er frumvarp til nýrra persónuverndarlaga, en því er ætlað að innleiða persónuverndarreglugerð ESB, skammstafað GDPR. Atvinnulíf og stofnanir hafa verið á fullum krafti að búa sig undir að þetta taki gildi núna í vor.

Frumvarpið hefur ekki enn verið lagt fyrir Alþingi þrátt fyrir að það sé búið að vera til meðferðar í ráðuneyti ráðherrans um allnokkra hríð, a.m.k. yfir einar kosningar. Norska Stórþingið fékk sitt frumvarp inn frá ríkisstjórninni norsku í lok mars, er að fjalla um það og hefur til meðferðar í nefnd. Stórþingið hyggst afgreiða málið núna um mánaðamótin ef ég hef skilið það rétt.

Þetta er regluverk sem gildir um alla Evrópu. Það er mjög alvarlegt ef það verður gap í því að það taki gildi á Íslandi miðað við önnur Evrópuríki. Það hefur líka um mjög langan tíma legið algjörlega ljóst fyrir að viðmiðunardagurinn er 25. maí þannig að það kemur engum á óvart.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á þessum seinagangi? Af hverju í ósköpunum er þetta frumvarp ekki komið fyrir þingið til umræðu? Í ljósi þess tíma sem gefst til þess að fjalla um málið, sæmir það virðingu Alþingis að taka svona stórmál inn svona seint?