148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Hagsmunir Íslands tengdir þróuninni á norðurslóðum eru gífurlega miklir. Það þarf a.m.k. tvennt að koma til til þess að við getum varið þá hagsmuni. Annars vegar þurfum við að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum og hins vegar þarf pólítískan vilja til að verja þá hagsmuni. Hvorugt virðist almennilega vera til staðar hjá þessari ríkisstjórn.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi hér í framhjáhlaupi rétt í lok ræðu sinnar að Akureyri væri norðurslóðamiðstöð Íslands. En hvernig sýnir ríkisstjórnin það í verki? Háskólinn á Akureyri, sem hefur gríðarlega burði til þess að leiða sókn okkar í málefnum norðurslóða, er fjársveltur. Það stóð til að bæta þar úr, þegar efnahagshorfur væru komnar í það far sem nú er, en þrátt fyrir tal um stórsókn í menntamálum er Háskólinn á Akureyri áfram fjársveltur. Stórsóknin í menntamálum er að verða eitthvað eins og stórsóknin svokallaða í samgöngumálum, þ.e. mönnum er sérstaklega refsað í þessum greinum þar sem ríkisstjórnin talar um stórsókn.

Talandi um hagsmunagæslu. Það virðist nánast hafa farið fram hjá ríkisstjórninni — ég hef a.m.k. ekki séð hana lyfta litla putta til að bregðast við því — þegar samstarfsmenn okkar, Norðmenn, ákváðu skyndilega að hætta olíu- og gasleit á Drekasvæðinu eftir að hafa gert samstarfssamning við Íslendinga skömmu eftir að Norska stórþingið hafði stóraukið framlög til rannsóknanna enda höfðu þær sýnt að verulegar líkur væru á umtalsverðum olíu- og gaslindum í lögsögu Íslands.

Hlýnun jarðar er gríðarlegt vandamál, virðulegur forseti, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Fyrst og fremst eykst losunin hratt vegna þess að kolabrennsla er að aukast gífurlega. Við Íslendingar þurfum að leggja okkar af mörkum með því að bjóða heiminum upp á meira gas og íslenska olíu til þess að draga megi úr kolabrennslu í heiminum og þar af leiðandi losun gróðurhúsalofttegunda.