148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[14:47]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á málefnum norðurslóða. Sú sem hér stendur er þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í Vestnorræna ráðinu, en þar hefur markvisst frá árinu 2012 verið unnið að því að styrkja stöðu vestnorrænu landanna á norðurslóðum. Þróun á norðurslóðum er sérstaklega mikilvæg fyrir vestnorrænu löndin þrjú, þ.e. Grænland, Færeyjar og Ísland, því að 20% af landmassa norðurslóða tilheyra þeim og íbúar þeirra eru um 10% af heildaríbúafjölda norðurslóða.

Sameiginlegir hagsmunir þessara þjóða eru ótvíræðir. Sérstök nefnd hefur unnið að því að draga fram á hvaða sviðum vestnorrænu löndin eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi norðurskautsmál. Á alþjóðlegum vettvangi hefur Vestnorræna ráðið einnig lagt áherslu á skyldu þjóðkjörinna fulltrúa til að vernda rétt íbúa svæðisins. Nú þegar athygli heimsins hefur beinst að þessu svæði er þetta mikilvægur þáttur. Eins og fram kemur í ársskýrslu ráðsins er lögð áhersla á að umræðan snúist um fólk sem býr á norðurslóðum og hvernig tryggja mega íbúum þar öryggi og hagsæld.

Umhverfismál og sjálfbær þróun hafa eðlilega verið mönnum ofarlega í huga. Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Illulissat í Grænlandi í janúar síðastliðinn var yfirskriftin: Tækifæri og áskoranir í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndum með sérstakri áherslu á sjálfbærni í ferðaþjónustu.

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja ráðherra hvert hann sér hlutverk Vestnorræna ráðsins í norrænni samvinnu? Raunverulegar ógnir steðja að svæðinu, t.d. í formi plastmengunar, og verkefnin eru mörg á sviði umhverfisverndar. Tækifærin eru líka mýmörg, en viðkvæm náttúran krefst þess að við förum fram af gætni og nýtum okkur þekkingu íbúanna í bland við framlag vísindamanna. Þess vegna er mikilvægt að styrkja Háskólann á Akureyri enn betur, sem er eini háskólinn á Íslandi sem hefur norðurslóðamálefni í kjarna heildarstefnu sinnar. Þar er þverfagleg áhersla á málefni norðurslóða. Háskólinn á Akureyri býr að sterku tengslaneti í fræðasamfélagi norðurslóðarannsókna.

Hæstv. forseti. Háskólinn á Akureyri hefur vettvanginn til þverfaglegra rannsókna. Er ekki upplagt að styrkja þá stoð inn í verkefni framtíðarinnar?