148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:58]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég er í tveimur nefndum Alþingis og ætla að nefna hér allsherjar- og menntamálanefnd sem er mjög vel mönnuð og hefur verið stýrt af röggsemi af formanni hennar, hv. þm. Páli Magnússyni, og hefur samstarfið gengið þar afskaplega vel. Ég vil bara nota þetta tækifæri til þess að hrósa sérstaklega fyrir það.

Það er hins vegar þannig að það eru tvö mál í nefndinni, annars vegar sem varðar aðgang að stafrænum smiðjum sem er tilbúið og öll nefndin er sammála um og nefndarálit liggur fyrir og hins vegar mál um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Þar hefur reyndar komið fram að fulltrúi Sjálfstæðismanna í nefndinni, Birgir Ármannsson, er á móti því máli, en að öðru leyti sýnist mér að sé góður meiri hluti í nefndinni fyrir því. Ég hef óskað eftir úttektarfundi, gerði það með pósti fyrir klukkan níu í morgun, og nú bíð ég (Forseti hringir.) bara eftir svari frá mínum ágæta formanni, Páli Magnússyni, um að við höldum slíkan fund núna á eftir.