148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hef ítrekað talað hér um að skipulagsleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar muni ekki skapa neyðarástand af hálfu okkar. Síðan kemur hv. þm. Birgir Ármannsson, útskýrari ríkisstjórnarinnar, og útskýrir fyrir okkur að það séu mál sem einhvern veginn liggur rosalega mikið á að komast í 1. umr. og umsagnarferli. Okkur eru sett tímatakmörk, 1. apríl, varðandi ný mál. Þess vegna drifum við okkur í stjórnarandstöðunni í því að koma þessum málum inn í þingið fyrir 1. apríl. Við vorum að vonast eftir mjög eðlilegu, sanngjörnu ferli. Auðvitað eiga ný mál ekki að komast að eftir þann tíma. Svo allt í einu birtist fullt af málum frá ríkisstjórninni, t.d. um fríverslunarsamning við Filippseyjar, sem rætt hefur verið áður þannig að það þurfti ekkert að vinna það mál neitt mikið í (Forseti hringir.) ráðuneytinu. Að það skuli koma svona seint fram er vítavert virðingarleysi ráðherra við tíma og verkskipulag þingsins.

Ég beini því til forseta að standa með þinginu og hafna því að setja svona mál á dagskrá. Það er nauðsynlegt að við fáum eðlilegt ferli en séum ekki alltaf einhvern veginn að gera það sem ríkisstjórnin biður um hverju sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)