148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kem hér til að fagna þeim upplýsingum sem fram komu og játa auðmjúklega á mig misskilning fram að þessu. Í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar kom fram að Miðflokkurinn hefði í 16 ára kosningamálinu reglulega lagt fram sáttarhönd, í tvígang, og að ekki hefði verið tekið í hana. Ég játa það bara auðmjúklega að ég hef kannski verið of blindaður af málinu en ég sá ekki þá sáttarhönd, en það er gott að ég sá hana núna áður en við afgreiðum málið.

Ég er með breytingartillögu uppi í því máli sem fjallar um að gildistakan verði 1. júní næstkomandi. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram breytingartillögu um að gildistakan yrði 31. desember 2019, ef ég man rétt. Þannig að ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki bara að sameinast um að koma málinu sem fyrst á dagskrá og samþykkja þá breytingartillögu. Ég skal taka auðmjúkur í þá sáttarhönd (Forseti hringir.) og við getum samþykkt 16 ára kosningaaldurinn núna fyrir þinglok — (Forseti hringir.) við skulum muna að við erum ekki að fresta þingi á morgun, við erum að fara í hlé — og með þeirri (Forseti hringir.) gildistöku sem hv. þingmaður lagði til. Til er ég.