148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að frumvarpið lýtur fyrst og fremst að stjórnvöldum, nokkrum framkvæmdaratriðum í þessum efnum. Haft var samband við ríkislögreglustjóra, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og lögregluna á Suðurnesjum, kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun. Þar fyrir utan hefur frumkvæði að breytingum þessum að nokkru leyti komið frá kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnuninni sjálfri. Það hefur því ekki þótt ástæða til frekara samráðs í ljósi efnis þessa frumvarps.

Hv. þingmaður sagði að hér væri verið að fella niður tvær boðanir til viðtals við Útlendingastofnun. Ég vil benda á að ekki er verið að gera það. Það er hins vegar verið að skýra að fyrstu boðun þurfi að gera með sannanlegum hætti þannig að mæti umsækjandi ekki aftur í seinni boðun hafi honum verið gerð skilmerkilega grein fyrir afleiðingum þess.

En ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til að skoða alla þessa þætti enn frekar og vænti þess að sjálfsögðu að frumvarpið verði sent til umsagnar til allra þeirra aðila sem kunna að hafa áhuga á málinu.